Blóm rauðsmárans eru mörg saman í
stórum, egglaga eða hnöttóttum kolli, sem er 2,5-3 sm í þvermál. Krónan
er rauð, 12-16 mm á lengd. Bikarinn er 7-8 mm, aðhærður, klofinn niður
til miðs í 5 örmjóa flipa með löngum, útstæðum hárum, en samvaxinn í
pípu neðan til. Fræflar eru 10, ein fræva. Blöðin eru flest stofnstæð,
stöngulblöð stakstæð, öll blöð þrífingruð með öfugegglaga eða
sporbaugóttum smáblöðum sem oft eru 2-3,5 sm á lengd, gishærð.
Axlablöðin mynda himnukennt eða ljósgrænt slíður með dökkum æðum og
löngum broddi í endann.