Móanóran hefur marga, rauðbrúna,
upprétta blómstöngla og langa blómleggi. Blómin eru 4-5 mm í þvermál,
fimmdeild. Krónublöðin eru hvít, á lengd við bikarinn, ávöl fyrir
endann. Bikarblöðin eru brúnfjólublá, venjulega með innbognum, ekki mjög
hvössum oddi, með þrem strengjum sem ekki eru áberandi upphleyptir fyrr
en við þurrkun. Fræflar eru tíu, ein fræva með þrem stílum, verður að
hýðisaldini sem opnast með þrem tönnum í toppinn. Fræin eru brún,
0,7-0.8 mm í þvermál. Blöðin eru gagnstæð, striklaga, ekki oddhvöss,
meir eða minna rauðblá.
Móanóran líkist nokkuð melanóru, en
hefur venjulega dekkri, hárlausa blómleggi, sem oftast eru fimmföld
lengd bikarsins eða meira. Þá eru bikarblöðin ekki eins oddhvöss, og
oftast lítið eitt bogin í endann.