er innfluttur, hávaxinn víðir sem mikið hefur verið notaður í skjólbelti víða um land. Þar sem bæði kynin ná saman, þroskar hann vel fræ og sáir sér nokkuð út um hagann. Blöð alaskavíðisins eru aflöng eða öfuglensulaga, græn á efra borði með niðurbeygðum jaðri, en þétt hvítloðin á neðra borði sem virðist því snjóhvítt. Í vindi verður hinn mismunandi litur blaðanna á efra og neðra borði mjög áberandi.
Blöðin eru 7-15 sm á lengd, 2-4 sm á breidd,
stuttstilkuð, sitja á stuttu, breiðfættu, gulgrænu slíðri. Axlablöð
eru
áberandi, lensulaga, 1-2 sm á lengd. Greinarnar
eru
grábrúnar eða brúnar,
ársprotarnir gildvaxnir, oft 5-7 mm þykkir, kafloðnir gráum ullhárum sem
eru mjög áberandi á veturna. Blómin eru
í 3-7 sm löngum reklum, einkynja,
rekilhlífarnar grænar neðst, rauðleitar ofar en svartar í endann, með
löngum, hvítum hárum. Fræni kvenblómanna eru
dökkrauð, fjórklofin, á
ljósgrænum stíl, frævan loðin.
Alaskavíðirinn hefur þann kost í skjólbeltum að vaxa hratt. Hins vegar vilja bolirnir verða ákaflega valtir og detta út af með aldrinum þegar þeir eru orðnir stórir. Útbreiðslukortið hér að neðan sýnir staði þar sem vitað er um alaskavíði sjálfsáinn, en hann hefur verið gróðursettur miklu víðar.
Blöðin á alaskavíðinum eru hvítlóhærð á neðra borði, og verður það mjög áberandi þegar blöðin feykjast til í stormi. Myndin var tekin á Arnarhóli í Eyjafirði sumarið 2004.
Hér sjást kvenreklar alaskavíðisins á miðju sumri á mynd sem tekin var á Arnarhóli í Eyjafirði sumarið 2004.
Hér sjást kvenreklar alaskavíðis blómstrandi að vorlagi á undan laufgun. Myndin er tekin á Arnarhóli í Eyjafirði 6. maí 2006.
Einkennandi fyrir ársprota alaskavíðis á veturna og vorin er hversu mjúkhærðir og gildvaxnir þeir eru. Þekkist hann þannig vel frá öðrum víðitegundum á veturna.Myndin er tekin 5. marz 2006 á Arnarhóli í Eyjafirði.