Klumbustörin ber
oftast 2-4 öx, toppaxið venjulega heldur stærra og aflengra en hin.
Karlblómin eru neðst í toppaxinu. Axhlífarnar eru dökk brúnar eða nær
svartar, miðstrengur þeirra ljósari og gengur fram úr axhlífinni og
myndar langan odd sem nær nokkuð upp fyrir hulstrið. Hulstrið er grænt
eða móleitt, smánöbbótt, með örstuttri eða engri trjónu.
Klumbustörin líkist mjög hrísastör í útliti,
þekkist helzt á því, að toppaxið er aflengra en hin öxin, aðeins
kylfulaga, og þar af nafnið klumbustör. Axhlífarnar eru áberandi lengri
og odddregnari en á hrísastör, ná oftast upp fyrir grænt hulstrið. Hún
er mjög sjaldgæf, aðeins fundin á einum stað á Austurlandi af Rannveigu
Thoroddsen árið 2012.
Klumbustörin var fyrst nýlega greind af Jacob Koopman, sem er einn færasti
sérfræðingur í evrópskum störum, en hann staðfesti jafnframt rétta
greiningu á öllum eintökum hrísastarar af vestanverðu landinu.
Lengi vel var hrísastör talin vera deilitegund undir Carex buxbaumii sem
subsp. alpina, en er nú talin vera sjálfstæð tegund, Carex
adelostoma.
Efsti hluti klumbustarar,
þurrkað eintak.
Hér sést annað þurrkað eintak af klumbustör.
Stækkuð mynd af efsta axinu, á henni sjást
axhlífarnar og hulstrin vel.