Blóm bjölluliljunnar standa í fremur gisnum klasa á stöngulendanum. Krónan er klofin nær niður í gegn, um 14-18 mm í þvermál. Krónublaðfliparnir eru öfugegglaga, hvítir eða með ofurlítið bleikum æðum. Fræflar eru tíu með fagurgulum frjóhirslum. Ein purpurarauð fræva með löngum (7 mm) og bognum stíl. Bikarblöðin eru um 3 mm á lengd, móleit eða bleik. Stöngullinn ber nokkur bleikleit eða móleit hreisturblöð (7-10 mm). Laufblöðin eru stofnstæð, stilkurinn álíka langur eða lengri en blaðkan sem er nær kringlótt eða sporbaugótt, 2-3,5 sm á kant, fremur þykk og skinnkennd.
Myndin af blómstrandi bjöllulilju er tekin í hlíðinni ofan við Hjaltastaði í Köldukinn þann 28. júní 2009
Hér er svo nærmynd af hinu gullfallega blómi bjölluliljunnar, tekin við sama tækifæri.
Hér er bjölluliljan með þroskuð aldini í Neslöndum við Mývatn 21. ágúst 2008.