Hreistursteinbrjótur er lítil jurt, venjulega blómlaus með þyrpingu af dökkmóleitum æxlikornum í greindri blómskipan efst á uppréttum stöngli. Æxlikornin eru egglaga, sporbaugótt eða öfugegglaga, 1-1,5 mm á lengd, rauðdröfnótt á litinn, venjulega í nokkrum þyrpingum efst á stönglinum, oft fáeinar á enda stuttra hliðargreina sem vaxa út frá blaðöxlum lítilla háblaða ofan til á stönglinum. Laufblöðin eru öll í stofnhvirfingu, tungulaga, tennt að framan og með afar strjálum, randhærðum kirtilhárum. Stöngullinn er beinn, uppréttur, með strjálum kirtilhárum neðan til. Einstöku sinnum myndast eitt toppstætt blóm sem líkist blómum stjörnusteinbrjóts.
Hér má greina hreistursteinbrjót í sínu rétta umhverfi. Helgi Hallgrímsson tók myndina uppi á Gloppufjalli við Öxnadal árið 1965.
Hér sést nærmynd af æxlikornum hreistursteinbrjótsins við Tungnahryggsjökul á Tröllaskaga árið 1987.
Hér sést hreistursteinbrjótur uppi á Gilsbakkafjalli í Skagafirði 3. ágúst 2008.