Blóm skógfjólunnar eru einsamhverf, legglöng, lotin. Krónan er fimmdeild, krónublöðin blá, neðsta blaðið gengur aftur í ljósan eða bláleitan spora. Bikarblöðin eru löng, odddregin, en ganga niður í snubbóttan sepa neðst. Fræflar eru 5. Frævan er þríblaða og verður að 8-10 mm löngu hýðisaldini sem klofnar í þrennt við þroskun. Laufblöðin eru stilklöng, breiðhjartalaga, bugsýld við stilkinn, hárlaus neðan en afar gishærð á efra borði, fíntennt. Axlablöðin eru mjó, striklensulaga, tennt.
Skógfjóla fannst fyrst árið 1840 á
Íslandi af Japetus Steenstrup við Krísuvík og á Snæfjallaströnd. Þá var
tegundin greind sem Viola sylvestris. Ingimar Óskarsson fann hana svo
löngu síðar við gróðurrannsóknir úti í Fjörðum austan Eyjafjarðar árið
1926.
Skógfjóla í Breiðavík eystra í júlí 1989.
Hér sjáum við aldin skógfjólunnar áður en það opnast. Tekið á sama stað.