Blóm heiðadúnurtarinnar eru rauð, fjórdeild, 5-7 mm á lengd. Bikarinn er um helmingi styttri en krónan, rauður eða grænleitur. Fræflar eru átta. Ein fjórblaða, hárlaus, rauð fræva, 2,5-4 sm löng og klofnar í fjórar ræmur við þroskun. Fræin eru með löngum, hvítum svifhárum. Stöngullinn er strendur, tvíhliðhærður. Blöðin eru gagnstæð, egglaga eða sporbaugótt, oftast ávöl fyrir endann, smátennt eða nær heilrend, hárlaus, 1-2,5 sm á lengd og 0,5-1,2 sm á breidd. Heiðadúnurtin hefur stuttar renglur með lágblöðum en ekki laukknappi.
Heiðadúnurt við Svalbarð í Þistilfirði sumarið 1981.
Heiðadúnurt í lækjarbakka í Mælifellsdal í Skagafirði 31. júlí 2010.