Fjallafræhyrna
Cerastium nigrescens var. laxum
er sjaldan á
láglendi, en algeng hátt til fjalla. Að jafnaði er hún algeng
eftir að komið er upp í 700 m hæð. Hún líkist mjög músareyra, sem
er algengt frá láglendi upp í sömu hæð og fjallafræhyrnan. Helztu
einkenni sem greina hana frá músareyra eru breiður og ávalur bikarbotn,
breiðari bikarblöð með ávalari oddi, fagurgrænni litur og minni loðna á
blöðum, og heldur styttri krónublöð.
Fjallafræhyrnan er fjölær jurt með
marga jarðlæga eða uppsveigða blaðsprota og blómstöngla. Hún
hefur lengst af gengið undir nafninu Cerastium arcticum. Stönglarnir eru
loðnir, einkum þéttloðnir efst. Blómin eru fimmdeild, 1-1,5 sm í
þvermál. Krónublöðin eru hvít, klofin í endann, oftast um þriðjungi
lengri en bikarblöðin. Bikarblöðin eru 6-8 mm löng, egglaga eða
breiðlensulaga, odddregin, kirtilhærð, himnurend. Fræflar eru tíu, ein
fræva með fimm stílum. Aldinið er um 8-10 mm langt tannhýði með tíu
tönnum. Fræin eru gulbrún, um 1 mm í þvermál. Bikarinn, bikarblöðin og
aldinið eru öll hlutfallslega styttri og breiðari en á músareyra. Laufblöðin
eru gagnstæð, stilklaus, öfug-egglaga eða oddbaugótt, 0,8-1,5 sm löng og
4-8 mm breið, töluvert loðin, einkum á röndunum.
Fjallafræhyrnan vex í
skriðum, á melum og rindum hátt til fjalla. Hún berst stöku sinnum með
ám niður undir láglendi. Algengustu hæðarmörk eru frá um 700 m hæð upp í
1300-1400 m. Nyrzt á landinu finnst hún stundum miklu
neðar, niður í 100-200 m hæð, og stöku sinnum berst hún með ám frá
fjöllum niður á eyrar á láglendi. Hæstu fundarstaðir eru í Snæfelli í
1520 m hæð, suðvestan í Tungnafellsjökli í 1400-1510 m hæð og á
Hvannadalshrygg í 1460 m hæð. Hún er útbreidd um allt landið þar sem
fjöll eru nægilega há.
Fjallafræhyrnan er
fagurgrænni, með styttri krónublöð og kúptari bikarbotn en
músareyrað. Myndin er tekin uppi á Skógaheiði,
Austur-Eyjafjöllum árið 1986