Jöklasóley er fremur lágvaxin, fjölær fjallajurt, nokkrir stönglar vaxa upp af sömu rót. Blómin eru stór, 2-2,5 sm í þvermál, oftast einstök á stöngulendanum. Krónan er lausblaða, fimmdeild, oft ofkrýnd. Krónublöðin eru í fyrstu hvít, en verða síðar dumbrauð með aldrinum. Bikarblöðin eru miklu styttri en krónublöðin, snubbótt, 7-10 mm löng, purpurarauð til jaðranna en annars þéttsett brúnum, hrokknum hárum. Jöklasóley hefur marga fræfla með gulum frjóhirzlum og margar frævur sem verða að flötum, sigðlaga hnetum með bakfaldi og alllangri trjónu. Laufblöðin eru dökkgræn eða ofurlítið brúnleit, stilklöng, handflipótt eða handskipt, hárlaus, gljáandi, bleðlaendar snubbóttir. Stönglar eru oft ofurlítið rauðfjólubláleitir.
Jöklasóley á Ranafelli við Hallárdal á Skaga árið 1994.
Jöklasóley í hlíðum Kerlingar í Eyjafirði 8. ágúst 1963 í um 1400 m hæð.
Ofkrýnt blóm á jöklasóley sumarið 1985 uppi á Hagafjalli við Hjaltadal, Skagafirði.