Vegarfinn er fjölær jurt af hjartagrasætt með
uppsveigða, greinda stöngla og oft með allmarga blaðsprota. Blómin eru
fimmdeild, 5-8 mm í þvermál, oftast 5-10 saman í kvíslskúf. Krónublöðin
eru hvít, með skerðingu í endann, álíka löng eða lítið eitt lengri en
bikarblöðin. Bikarblöðin eru hærð, odddregin, með breiðum himnufaldi,
5-8 mm löng. Fræflar eru 10, ein fræva oftast með 5 stílum.
Aldinið er gyllt tannhýði sem opnast með 10 tönnum,
fullþroskað oft um tvöfalt lengra en bikarinn. Laufblöðin eru gagnstæð,
aflöng, snubbótt eða ofurlítið ydd, 10-20 mm löng, loðin báðum megin og
á röndunum.