Helluhnoðri
Sedum acre
er útbreiddur um
allt land þótt ekki sé hann alls staðar jafn algengur. Hann vex
einkum á melum, á klettum og í skriðum, jafnt á láglendi sem til
fjalla. Hann nær alloft upp í 900 m hæð í fjalllendi, en hæst er hann
skráður í 1290 m í Steinþórsfelli í Esjufjöllum. Í næringarríkum
jarðvegi verða sprotar helluhnoðrans grænir og vöxtulegir án þess að
blómstra, en í grýttum og rýrum jarðvegi roðna sprotarnir og blómstra
ríkulega. Hann líkist aðeins skriðuhnoðra, en þekkist frá honum á hinum
mörgu, stuttu, blómlausu blaðsprotum sem ætíð vantar á skriðuhnoðra.
Helluhnoðrinn er fjölær. Blómin eru
1-1,5 sm í þvermál, fimmdeild. Krónublöðin eru odddregin,
lensulaga, gul. Bikarblöðin eru stutt (3 mm, sporbaugótt, snubbótt í
endann. Fræflar eru 10. Frævur eru fimm, hver um sig með einum stíl.
Blöðin eru stutt (3-4 mm) og gild, nær sívöl, safarík,
fagurgræn, þéttstæð á mörgum, stuttum blaðsprotum.
Hér sjáum við
blómstrandi helluhnoðra í fjörunni á Húsavík eystri 24.
júlí 1989.
Hér sjáum við hvernig sprotar
helluhnoðrans fylla upp í gangstéttarrifur á Hvammstanga í júní 2004.