Lensulófótur er nokkuð grófgerð vatnajurt með
jarðstöngulkerfi sem er á kafi í vatninu, en upp af því vaxa um
2-4
mm gildir, uppréttir stönglar sem
standa upp út vatninu, alsettir
kransstæðum blöðum. Í hverjum kransi eru venjulega 6-7
blöð, stundum 8, styttri og breiðari en á
venjulegum lófæti, lensulaga, mjókka til
beggja enda. Blómin
eru örsmá, standa einstök í blaðöxlunum, tvíkynja, yfirsætin.
Blómhlífin
er einföld, myndar aðeins fjóra smásepa sem standa út úr
rauðri frævunni ofanverðri. Ein fræva og einn fræfill
eru í hverju blómi.
Lensulófótur frá ósi Fríðukíls í botni Eyjafjarðar, í júlí 2016. Greina má blómin í blaðöxlunum.
Lensulófótur, blaðkransar og blóm með meiri stækkun
Hér sést hvar lensulófótur er byrjaður að mynda breiðu við ós Fríðukílsins við Eyrarland árið 1981.
Tekið á sama stað 2016. Stór breiða hefur myndast við útþenslu jarðstöngulkerfisins. Gamli Vaðlaheiðarvegur neðst til vinstri, nýr Laugalandsvegur er kominn á efri hluta myndar.