Jöklaklukka
Cardamine bellidifolia
er lítil jurt af
krossblómaætt sem aðeins finnst hátt til fjalla.
Jöklaklukkan vex á melum og í mosaþembum. Hún finnst á víð og dreif um
landið frá 600-1200 m hæð, nema á Suðurlandi. Hæstu fundarstaðir
eru
á
Hvannadalshrygg í 1440 m hæð, á Staðargangnafjalli við botn Kolbeinsdals
í 1240 m, og í Héðinsdalsbrúnum við Hjaltadal í Skagafirði í 1200 m. Vex
lægra, niður í um 300 m hæð sums staðar eins og nyrzt á Vestfjörðum og
norður í Fjörðum, lægst fundin niður fyrir 100 m á Snæfjallaströnd. Jöklaklukkan þekkist helst á litlum, heilrendum,
stilklöngum blöðum, og löngum striklaga skálpum. Hér til hliðar vex hún
í mosaþembu innan um gráhærðan hraungambra.
Jöklaklukkan er algengust á fjöllum blágrýtissvæðanna á
Vestfjörðum, Miðnorðurlandi og Austfjörðum, en einnig nokkuð víða í
mosaþembum á fjöllum Vesturlands.
Blóm jöklaklukkunnar eru 4-5
mm í þvermál, fjórdeild. Krónublöðin eru hvít, tungulaga, 3-5 mm á
lengd. Bikarblöðin eru 2-2,5 mm löng, grænmóleit, aflöng og ávöl í
endann. Fræflar eru sex með hvítum frjóhirzlum. Frævan er ein og verður að
1-2 sm löngum og um rúmlega 1 mm breiðum skálp með einfaldri röð brúnna
fræja sem eru rúmur millimetri á lengd. Laufblöðin eru stofnstæð,
langstilkuð, blaðkan heilrend, egglaga eða nær kringlótt, 3-7 mm á lengd
og 2-5 mm breið, með örstuttum kirtiloddi í endann.
.