Hárleggjastör
Carex capillaris
er smávaxin stör
sem vex í deiglendi í móum, rökum klettasyllum,
lækjarbökkum og snögggrónu raklendi yfir klöppum og annars staðar þar
sem jarðvegur er grunnur. Hún er algeng um allt land frá láglendi
upp í 600 m hæð. Hæst er hún fundin á Kiðagilshnjúk í 750 m hæð,
og Böggvisstaðafjalli við Dalvík í 700 m. Kvenöxin eru lítil og fíngerð,
ljósgræn í fyrstu en verða síðan ljósbrún, og hanga á sérlega fínum
leggjum. Af þeim dregur störin nafnið.
Hárleggjastör ber tvö til þrjú
kvenöx á löngum leggjum. Eitt lítið karlax. Axhlífar
eru ljósbrúnar með hvítleitum, himnukenndum, slitróttum jöðrum. Hulstrið
er ljósbrúnt eða grænleitt, með alllangri trjónu, gljáandi, um 3 mm á
lengd. Frænin eru þrjú. Stráin eru sljóstrend, gárótt. Blöðin eru flöt,
1-2 mm breið neðan til, þrístrend í endann.

Toppur af hárleggjastör,
tekin árið 1982.

Nærmynd af aldinum hárleggjastarar í Eyjafirði árið 1963