Skriðlíngresi
Agrostis stolonifera
hefur eins og önnur
língresi rauðleitan punt. Það vex oftast í raka, eða jafnvel í
tjarnastæðum. Þá myndar það langar, oft rauðleitar renglur sem
skríða út í vatnið eða eftir rökum leirflögum. Það getur einnig
vaxið á fremur þurru landi, og myndar þá þétta toppa og skríður minna.
Skriðlíngresi er algengt um land allt frá láglendi upp í 800 m hæð.
Hæstu fundarstaðir eru í Vonarskarði (950 m) og Gæsavötnum (930 m). Ekki
leikur vafi á því, að skriðlíngresi hefur eins og hálíngresi verið komið
til landsins löngu fyrir landnám. Hægt er að rugla saman skriðlíngresi
og vatnsnarfagrasi, sem einnig er skriðult
og vex í vætu.
Puntur skriðlíngresis er
fíngerður, rauðbrúnn, 3-10 sm langur, tiltölulega þéttur
með stuttum, nokkuð uppréttum greinum, venjulega mjórri en á
hálíngresi. Smáöxin eru einblóma. Axagnir eru
rauðbrúnar eða fjólubláleitar, 3-3,5 mm langar, eintauga,
yddar, hvelfdar; taugin oft með uppvísandi broddum á bakhliðinni.
Blómagnirnar hvítar, sú neðri nær tvöfalt lengri en sú efri, með stuttri
baktýtu ofan við miðju. Blöðin 1,5-4 mm breið, slíðurhimnan
2-3 mm á lengd.
Hér sjást langskriðular
renglur skriðlíngresis á leirum við flæðarmál Eiðisvatns við
Grundartanga í Hvalfirði 26. ágúst 1997.
Hér sést puntur
skriðlíngresis í Reykjavík árið 1982.