Grámyglan er einær jurt með nokkrum
blómum saman í litlum, þéttstæðum körfum með odddregnum reifablöðum sem
eru himnu-kennd og brúnleit ofan til, en græn með purpurarauðri rönd
neðst. Krónupípan er 1-1,5 mm á lengd, mjög grönn
(0,1-0,2 mm), gulgræn að lit. Bikarinn er ummyndaður í hárkrans.
Stöngullinn er marggreindur, þéttvaxinn hvítum lóhárum. Blöðin eru
gagnstæð, lensulaga eða striklaga, þéttlóhærð, 10-25 mm löng, 2-4 mm
breið, breiðust ofan til.
Víðast hvar þar sem grámyglan vex
við laugar er eða hefur verið nokkur umferð. Því er alls ekki ólíklegt
að hún hafi borizt með byggðinni fyrr á öldum, og er nú orðin útbreidd á
þeim jarðhitasvæðum þar sem umferð er nokkur. Tegundin er þekkt að því
að berast með manninum, og er talin aðflutt í Grænlandi.
Hér sést grámygla árið 1983 í nágrenni Hveragerðis.
Hér sést grámygla á hverasvæðinu við Laugarás í Biskpustungum, böðuð í daggardropum gufu sem þéttist á blöðum hennar.