Hálíngresi
Agrostis capillaris
er í meðallagi
hávaxið gras með fíngerðum, rauðleitum punti. Það er gömul og
rótgróin jurt í landinu, algeng hvarvetna um mólendi og lægri heiðar upp
fyrir 500 m hæð. Það vex einkum í grasdældum, brekkum og kjarrlendi.
Það er einnig mikið ræktað í túnum. Hæstu fundarstaðir hálíngresis eru í
750 m hæð í botni Glerárdals við Eyjafjörð, og í 740 m í Hattveri á
Landmannaafrétti og við Laufrandarhraun á Bárðdælaafrétti.
Algengt um allt land nema sjaldséð á miðju hálendinu og sömuleiðis í
Ódáðahrauni, Mývatns- og Möðrudalsöræfum. Ekki leikur vafi
á því, að hálíngresi hefur verið útbreitt hér á landi frá því löngu
fyrir landnám.
Puntur hálíngresisins er
fíngerður, rauðbrúnn, allstór, 8-16 sm langur. Smáöxin eru
einblóma. Axagnimar eru rauðbrúnar eða fjólubláleitar, 3-3,5
mm langar, ein- eða þrítauga, hvelfdar eða með snörpum kili.
Blómagnir eru miklu styttri, hvítar; neðri blómögnin er tvöfalt lengri
en sú efri, týtulaus eða með stuttri baktýtu. Blöðin eru flöt, 2-4
mm breið, snörp. Slíðurhimnan er örstutt, þverstífð, 0,5-1
mm á lengd, þær efstu stundum lengri.
Puntur hálíngresis í Reykjavík 23. júlí
árið 1982,
Puntur hálíngresis á
Arnarhóli í Kaupangssveit 12. ágúst 2006.