Blóm sauðamergsins eru um 4-6 mm í þvermál. Krónan er samblaða, klofin nær niður til miðs, bleik eða fagurljósrauð. Bikarinn er dökkrauður, djúpklofinn með sljóyddum flipum. Fimm til átta fræflar með dökkum frjóhirslum. Ein fræva með einum stíl og tveim til þrem rýmum, verður að hýðisaldini. Sprotarnir eru trékenndir. Blöðin eru gagnstæð, 6-7 mm á lengd, stuttstilkuð, 1-2 mm á breidd, hörð, sígræn, gljáandi á efra borði, með innbeygðum röndum að neðan og gildu miðrifi, og verða aðeins mjóar skorur sitt hvorum megin við rifið að blaðröndunum. Ein djúp skora er yfir miðrifinu á efra borði.
Sauðamergur við Hölknárgil á Gnúpverjaafrétti við Þjórsá árið 1992
Sauðamergur í Eldgjá árið 1963.
Sauðamergur í Leifsstaðabrúnum í Eyjafirði 11. júní 2006.