Blóm snæsteinbrjóts standa allmörg saman í hnapp efst á stönglinum, fimmdeild, um 5-6 mm í þvermál, hvít, stundum grænleit eða bleikleit. Bikarinn er klofinn nær til miðs, grænn eða rauður. Fræflar eru 10, frævan klofin í toppinn með tvo stíla, frænin útstæð. Stöngullinn er loðinn, blaðlaus fyrir neðan blómskipunina. Blöðin eru í stofnhvirfingu, vængstilkuð. Blaðkan er nær kringlótt, gróftennt, 1-2 sm á breidd.