Sandfax
Bromus inermis
er grastegund sem
kom inn í landið á síðari hluta 20. aldar. Það hefur sérkennilega,
langa, mjög blaðmarga og upprétta sprota sem mynda þéttar og samfelldar
breiður, ekki ólíkar húsapunti. Blómskipunin er þó mjög ólík, puntur með legglöngum
greinum og týtulausum smáöxum. Sandfaxið er töluvert farið að breiðast
út af sjálfsdáðum og myndar t.d. víða þéttar breiður af
blaðmörgum, uppréttum blaðsprotum meðfram vegum í Eyjafirði.
Blöðin eru stór og breið, 6-12
mm á breidd.
Puntur sandfaxins er allstór,
10-18 sm á lengd, bleikmóleitur á litinn. Smáöxin eru 5-9
blóma, oft 2-2,5 sm á lengd. Axagnir eru 5-8
mm langar, snubbóttar í endann, hvelfdar, sú neðri eintauga og
styttri, sú efri þrítauga. Neðri blómögnin er með þrem upphleyptum
taugum, 7-10 mm löng. Stráin eru sterkleg.