Hnappstör
Carex capitata
vex
í móum og þurru graslendi, oft í grasdældum, einnig oft í deiglendi yfir
klöppum og annars staðar þar sem jarðvegur er grunnur.
Hún er algengari á landræna svæðinu á Norðausturlandi en
annars staðar. Hún finnst frá láglendi upp í 600 m hæð,
hæstu fundarstaðir á Kiðagilshnjúk í 750 m hæð, Böggvisstaðafjalli við
Dalvík í 700 m og Bíldsárskarði í Vaðlaheiði í 680 m.
Hnappstörin hefur eitt, hnöttótt ax, og standa karlblómin upp úr
toppnum.
Hnappstörin vex í þéttum toppum.
Hún er með stuttu og gildu, hnapplaga axi, 6-8 mm löngu og 6-7 mm
breiðu. Karlblómin mynda smátrjónu í enda axins, en kvenblómin eru
neðar, í gildari hlutanum. Axhlífar eru brúnar í miðju en himnukenndar
til jaðranna. Hulstrin eru græn og allbreið með langri trjónu.
Frænin eru tvö. Blöðin
eru grönn (1 mm) og snarprend, virðast sívöl í ummáli, en eru grópuð eða
samanbrotin.