Skriðsóley er meðalstór, fjölær,
skriðul jurt með stór, gul blóm. Blómin eru 1,5-2,5 sm í þvermál,
fimmdeild. Krónublöðin eru fagurgul, öfugegglaga, 7-15 mm löng.
Bikarblöðin eru 5-8 mm löng, bleikmóleit, egglaga og odddregin, hærð að
utanverðu. Fræflar eru margir með gulum, 2 mm löngum frjóhnöppum.
Allmargar frævur eru í miðju blóminu sem verða að einfræja, 3-3,5 mm
löngum hnetum með stuttri, flatri trjónu og standa utan á hnöttóttum
kolli. Stöngullinn er hærður með stakstæðum og stofnstæðum blöðum á
löngum stilk. Blaðstilkar eru þétthærðir, blaðkan gishærð, þrískipt,
miðhlutinn stilkaður, hver blaðhluti annars djúpskertur í þrjá flipa sem
hver um sig er tenntur. Skriðsóleyjan myndar ætíð langskriðular renglur,
og vex því í þéttum breiðum fremur en í sjálfstæðum toppum eins og
brennisóleyjan.