Varmadeplan er einær jurt af græðisúruætt með skriðulum stöngli og uppréttum, 10-25 sm háum, hærðum greinum. Blöðin eru gishærð, kringluleit eða breiðegglaga, gróftennt, 10-18 mm löng, á stuttum (2-5 mm) stilk. Bikarblöðin eru græn, 5-7 mm löng, randhærð. Blómin eru einstök í blaðöxlunum. Krónan er blá, 8-12 mm í þvermál, stíllinn er 2,5-3 mm á lengd. Blóm- og aldinleggir eru grannir, 15-25 mm langir, niðursveigðir í endann. Aldinið er breiðhjartalaga með breiðri, V-laga skoru, stutthært með áberandi æðaneti.