Blóm völudeplunnar eru allmörg saman í fremur gisnum klösum sem sitja í blaðöxlunum, 10-15 mm í þvermál, á 3-8 mm löngum, grönnum leggjum. Krónublöðin eru misstór, blá með dekkri æðum, bikarblöðin eru græn, lensulaga eða oddbaugótt, 3-4 mm á lengd, hærð, oddmjó. Fræflar eru tveir. Ein loðin fræva með einum stíl. Stöngullinn er hærður með gagnstæðum blöðum; blöðin egglaga, gróftennt, hærð, 1,5-3 sm á lengd, stilklaus eða með örstuttum stilk.