Blöðrujurtin blómstrar sjaldan hérlendis. Heimildir eru þó um að hún hafi sést blómstrandi á Barðaströnd. Blómstöngullinn er uppréttur með fáum blómum, gulum og heilkrýndum. Krónan er varaskipt, 7-10 mm löng, með spora; blómginið þröngt. Blaðsprotar eru marggreindir og hafa tálknkennd, greind blöð með oddmjóum flipum. Blöðin bera hvert um sig eina eða fleiri örsmáar (1,5-2mm) veiðiblöðrur með opi sem loka er fyrir. Smádýr sogast inn í blöðruna vegna undirþrýstings í henni, ef lokan opnast skyndilega við ertingu hára utan á henni. Lokast dýrin þá inni og meltast. Jurt þessi myndar oft allmiklar flækjur í vatninu.
Hér sjást kafblöð og veiðiblöðrur blöðrujurtarinnar. Myndin er tekin á rannsóknastofu Líffræðistofnunar Háskólans að Grensásvegi 12 árið 1986.
Hér er blöðrujurtin úti í sínu náttúrlega umhverfi í brautarskurði uppi í Biskupstungum árið 1986.