Fjallanóran er smávaxin, fjölær
jurt með græna, upprétta blómstöngla. Blómin eru 4-6 mm í þvermál,
fimmdeild. Krónublöðin eru hvít, upprétt neðan til en breiða úr sér
efst, lítið eitt innskorin að framan. Bikarblöðin eru að mestu græn,
stundum lítið eitt fjólubláleit í endann, snubbótt að framan en oft
íhvolf eins og hetta í endann. Fræflar eru tíu, ein fræva með þrem til
fjórum stílum, verður að hýðisaldini sem klofnar í 3-4 tennur við
þroskun. Fræin eru gulbrún, 0,6-0,7 mm í þvermál. Blöðin eru gagnstæð,
mjólensulaga eða striklaga, oddmjó, oftast græn.
Hér sjáum við fjallanóru eins og hún birtist austur á Jökuldalsheiði árið 1983.
Hér er nærmynd af fjallanóru við Eyjabakkajökul árið 2002.