er fremur smávaxin
jurt með smáum, gráloðnum, oddbaugóttum blöðum. Hún vex stundum
hátt til fjalla (hæst 1070 m á Kirkjufjalli við Hörgárdal), en er
einstöku sinnum einnig á melum á láglendi. Hún er fremur sjaldgæf
og finnst aðeins á hinu landræna svæði hálendisins norðan jökla og um
austanvert norðurland. Hún líkist fljótt á litið grámullu
sem þó er miklu algengari. Fjallalójurtin hefur breiðari blöð og vex ekki í snjódældum.
Blómin eru í smáum körfum eins og á grámullu, enda báðar af
körfublómaætt.
Blóm fjallalójurtarinnar eru einkynja í sérbýli, mörg
saman í litlum (5 mm), þéttstæðum körfum sem líkjast brúsk af gráum
hárum. Reifablöðin eru 3-5 mm löng, græn við fótinn en
brúnleit eða svarbrún ofan til, lensulaga. Krónan er gul á karlblómum,
purpurarauð á kvenblómum, hárfín (0,1 mm), 3-4 mm á lengd,
umkringd fjölmörgum hvítum hárum (svifkrans). Stíllinn stendur upp úr
krónupípunni á kvenblómunum og frænið er klofið. Stöngullinn er
lóhærður, blöðóttur; flest blöðin eru stofnstæð í hvirfingu, frambreið
(2-3 mm) með stuttum broddi í endann.
Þessi mynd af fjallalójurt er tekin í
Lystigarði Akureyrar árið 1963.