Freyjubrá er nokkuð stór jurt með
einni, toppstæðri körfu á hverjum stöngli. Karfan er 4-5 sm
í þvermál. Jaðarblómin eru hvít. Tungukrónan er 3-5 mm á
breidd og 1,5-2,5 sm á lengd. Hvirfilblómin eru gul. Reifablöðin eru
aflöng, græn með dökkbrúnum eða svörtum, himnukenndum jaðri. Stöngullinn
er með upphleyptum gárum. Blöðin eru tungulaga eða spaðalaga, óskipt en
gróftennt, snögghærð eða hárlaus; neðstu blöðin dragast saman í mjóan
stilk, en efri stöngulblöðin stilklaus og greipfætt.
Myndin af freyjubrá er tekin í Lystigarði Akureyrar árið 1982
Nærmynd af blómi freyjubrárinnar er tekin 18. júlí 2011 í grennd við Kópavogslæk.
Hér sjáum við blöð freyjubrárinnar greinilega, en á þeim þekkist hún best frá baldursbrá.