Flóra Íslands - Blómplöntur
Melablóm
Arabidopsis petraea
eða
melskriðnablóm er af krossblómaætt. Það vex einkum á melum, söndum, áreyrum, í hraunum og í melskriðum
fjallshlíðanna. Það er með allra algengustu
jurtum um allt land, ekki sízt á sandauðnum hálendisins.
Sums staðar vex það þó strjált, einkum á láglendi þar
sem land er vel gróið. Til fjalla nær það víða upp fyrir 1000 m hæð.
Hæstu fundarstaðir eru í 1460 m hæð á Hvannadalshrygg í Öræfum, 1370 m í
Kverkfjöllum vestari, 1250 m á Tungnafellsjökli og 1200 m í Öskju og á
Bláfjalli í Mývatnssveit.
Melablómið er fremur lítil, fjölær jurt, oftast með
nokkra eða marga stöngla af sömu rót. Blómin eru mörg saman í stuttum
klasa efst á stöngulendunum, fjórdeild. Krónublöðin eru hvít, sjaldan
með aðeins ljósfjólubláum blæ, 5-8 mm á lengd, naglmjó, ávöl fyrir
endann. Bikarblöðin eru egglaga eða sporöskjulaga, 2-3 mm á lengd,
gulgræn eða bleikleit með glærum himnufaldi, oft með nokkur hvít
kvíslhár á bakhliðinni. Fræflar eru sex, örlítið lengri en bikarblöðin,
ein fræva með stuttum stíl, verður að 10-30 mm löngum og aðeins 1-1,5 mm
breiðum skálpi við þroskun, fræin gulbrún, 1-1,5 mm löng. Stönglar eru
grannir, oftast hárlausir ofan til, stöngulblöðin eru stakstæð,
öfuglensulaga og heilrend, flest blöðin eru í stofnhvirfingu, oftast
gróftennt eða sepótt á hliðunum, stundum reglulega fjaðurflipótt.
Laufblöðin eru ýmist hærð á báðum hliðum, eða randhærð eða alveg
hárlaus.
Melablóm í Dyngjufjöllum 3. ágúst 1975.