Hagastör
Carex pulicaris
er sjaldgæf stör
sem finnst á nokkru svæði á norðanverðum Austfjörðum, á Snæfellsnesi og
á Ströndum, en ófundin annars staðar. Hún vex í rökum mýrarhöllum,
deiglendi yfir klöppum eða á lækjarbökkum. Allir fundarstaðir hagastarar
eru á láglendi neðan 200 m hæðar.
Hagastör er heldur smávaxin, með
einu fremur gisnu axi á stráendanum. Kvenblómin eru neðst í axinu en
karlblómin efst. Þegar kvenblómin þroskast vísa aldinin beint út eða
niður á við. Að því leyti minnir hún á broddastör, en aldin
hagastararinnar eru miklu kröftugri og gildvaxnari. Axhlífar eru oddmjóar, ljósbrúnar, himnurendar. Hulstrin
eru grönn, alllöng, 4-5 mm, slétt og gljáandi,
kastaníubrún, oddbaugótt eða lensulaga. Þau falla fljótt af eftir
þroskun. Frænin eru tvö. Stráin eru sívöl, gáruð. Blöðin eru grönn (1 mm),
grópuð.
Hagastör hefur miðsvæðaútbreiðslu, er algengust
norðan til á Austfjörðum og á Snæfellsnesi auk nokkurra fundarstaða á
Ströndum og á Skarðsströnd. Hagastör er án efa gömul í landinu, en
fannst ótrúlega seint miðað við hversu algeng hún er á sumum svæðum.
Guðni Guðjónsson grasafræðingur mun hafa fundið hagastörina fyrstur árið
1948 í Kaldbaksvík á Ströndum (Ingimar Óskarsson 1951). Ingólfur
Davíðsson fann hana síðan í Norðfirði 1949 og í Mjóafirði 1950 (Ingólfur
Davíðsson 1950b). Á næstu árum á eftir verða svo margir til að finna
hana, bæði á Ströndum, Snæfellsnesi og Austfjörðum.