Blóm brönugrasanna eru í klasa á enda stöngulsins, purpurarauð, tvísamhverf, af blómhlífarblöðunum vísa fimm upp en stærsta krónublaðið vísar niður og myndar neðri vör. Hún er með dökkrauðum dröfnum og rákum, þríflipuð að framan, með tveim ávölum, breiðum hliðarsepum, og einum mjóum miðsepa. Frævan er gárótt og snúin, situr neðan undir blómhlífinni, þar sem blómin eru yfirsætin. Stöngullinn er blöðóttur. Blöðin eru lensulaga, stór, 6-10 sm á lengd og 1-2 sm á breidd, greipfætt, hárlaus, oftast alsett dökkum blettum á efra borði, efstu blöðin minni.
Brönugrös, laufblöðin eru blettótt. Myndin er tekin á Hesteyri í Jökulfjörðum 23. júlí 2004.
Hér eru brönugrös með fremur stuttan blómklasa.
Þessi nærmynd af blómum brönugrasanna er tekin í Héðinsfirði árið 1982.