Blóm eyrarrósarinnar eru fjórdeild,
3-4 sm í þvermál, yfirsætin. Krónublöðin eru rauð, öfugegglaga.
Bikarblöðin eru dökkrauð, lensulaga, oddmjó, gis- og stutthærð. Fræflar
eru 8. Ein fjórblaða, afar löng (3-6 sm), fíndúnhærð, rauð
fræva með einum stíl. Þar sem blómið er yfirsætið, er frævan undir
blómhlífinni og lítur út sem gildur blómleggur. Laufblöðin eru gagnstæð,
lensulaga, snögghærð, heilrend eða með óglöggar, gisnar tennur,
20-40 mm löng og 4-10 mm á breidd.
Mynd af eyrarrós tekin í Eyjafirði árið 1963. Hér er annað blómið ofkrýnt, með fimm krónublöðum.
Nærmynd af blómi eyrarrósar tekin í Laugarbólsdal við Djúp í júlí 2005. Mjó bikarblöðin sjást dökkrauð á milli krónublaðanna.