Blátoppastör
Carex canescens
er allalgeng um
allt land frá láglendi upp í um 500 m hæð. Hæstu fundarstaðir eru
í 730 m hæð í botni Glerárdals við Akureyri og í 660 m í Kýlingum á
Landmannaafrétti. Stráin eru yfirleitt mörg saman í toppum, skástæð út
frá miðju toppsins með mörgum ljósgrænum öxum. Störin vex í
deiglendi og ekki mjög blautum mýrum, einkum oft á tjarnabökkum eða við
uppþornuð tjarnastæði.
Blátoppastörin ber fjögur til sjö öfugegglaga, aflöng,
ljósgrágræn öx með nokkru millibili á stráunum. Örfá karlblóm eru neðst
í hverju axi. Axhlífarnar eru ljósgrænar, himnukenndar, odddregnar.
Hulstrin eru ljósgulgræn, topplaga. Frænin eru tvö. Stráin eru
hvassþrístrend, blöðin flöt, 1,5-3,5 sm breið. Blátoppastörin
getur nokkuð líkst línstör í útliti, og eru
þær ekki alltaf auðþekktar í sundur. Blátoppastörin hefur mun stinnari
strá og aflengri öx.
Nokkur strá af blátoppastör, tekið
árið 1983
Nærmynd af öxum blátoppastarar er tekin árið
1984.