er nýr landnemi á
Íslandi. Það var fyrst greint frá þessu grasi árið 1969, en þá fannst
það sem slæðingur í gróðurhúsum í Hveragerði (sbr. Ingólf Davíðsson í
Náttúrufræðingnum 37 bls. 193 og 40 bls. 131, þar nefnt
fingurhirsi og fingurax). Nú hefur það hins vegar numið land utan dyra á
slóðum ferðamanna við Gunnuhver á Reykjanesi, breiðist ört út þar sem
jarðhita gætir og orðið ílent. Rannveig Thoroddsen veitti fingragrasinu
fyrst athygli við gróðurrannsóknir á jarðhitasvæðinu þar árið 2005. Þetta
gras er mjög auðþekkt frá öllum íslenzkum grösum, það hefur fremur stutt
og breið blöð sem liggja þétt með jörðu. Blómin eru í mjóum, striklaga
puntum sem allir greinast út frá sama stað, standa 2-6 saman, um 2-4 sm
á lengd. Blómin eru fest tvö og tvö við hvern lið, annað á stuttum en
hitt á nokkru lengri legg og leggst því ofar á puntgreininni.
Axhlífarnar eru ljósgráar, loðnar, með fimm taugum sem oft eru
fjólubláar á litinn. Eitt fræ myndast í hverju blómi, það er flatt,
oddbaugótt, dökk brúnt og um tveir mm á lengd en einn á breidd. Puntur
fingragrassins er jarðlægur eins og blöðin, og þolir því vel traðk
ferðamanna sem auðveldlega bera fræin um nágrennið.
Myndina af fingragrasi
tók Gróa Valgerður Ingimundardóttir á vettvangi við Gunnuhver.
Þessi mynd sýnir puntgreinar af fingragrasi
og er hún tekin af þurrkuðu, íslenzku eintaki í plöntusafni
Náttúrufræðistofnunar.