Hlaðkolla
Lepidotheca suaveolens
eða gulbrá
er skyld baldursbránni, en hefur þó engar hvítar tungukrónur.
Sást fyrst með vissu í Reykjavík árið 1902, en var þá
orðin mjög útbreidd þar, sem bendir til að hún hafi verið komin fyrr.
Bjarni Sæmundsson taldi sig hafa tekið eftir henni allt frá 1895. Síðan
þá hefur hún dreifst mikið út um landið. Hún vex einkum í
hlaðvörpum og athafnasvæðum við hafnir og í vörumiðstöðvum. Hún virðist
ferðast mest með vöruflutningabílum og loða fræin við dekk þeirra.
Þannig berst hún heim á sveitabæi með áburðar- og fóðurflutningum.
Dreifist þá fyrst út frá þeim stað þar sem bílarnir affermast eða snúa
við. Fáar erlendar jurtir hafa verið jafn fljótar og hlaðkollan að
dreifast með umferð um allan hinn byggða hluta landsins.
Blóm hlaðkollunnar standa mörg og
þétt saman í kúptum körfum, öll pípukrýnd. Krónan er gulgræn.
Reifablöðin eru breið, sporbaugótt, græn í miðju með breiðum, glærum
himnufaldi. Blöðin eru tví- til þrífjöðruð, smáblöðin striklaga.