Strá hrossanálarinnar eru sívöl,
nálarlaga. Nokkur blómhnoðu sitja í þéttum hnapp sem virðist hliðstæður
ofarlega á stráinu, en í raun er það stoðblaðið, sem stendur í beinu
framhaldi af stráinu. Blómhlífin er 6-blaða. Blómhlífarblöðin eru lítið
eitt ávöl í endann eða oddregin, dökkbrún. Fræflar eru sex með gulgræna
frjóhnappa. Frævan er rauð með stuttum stíl og þrískiptu, bleiku fræni;
verður að þrístrendu, dökkbrúnu aldini. Stráin eru stælt, stinn, sívöl,
hol, 1,5-2 mm í þvermál. Blöðin mynda slíður neðst á stönglinum, en enga
blöðku.
Hrossanál undir Ljósufjöllum á Snæfellsnesi árið 1985.
Blóm hrossanálarinnar í nærsýn, myndin tekin á Arnarhóli í Kaupangssveit árið 1963.
Hér sjáum við hvernig skriðull jarðstöngull hrossanálar sendir sprota í beinni röð upp úr sandinum á Hofsafrétti milli Illviðrahnjúka og Laugarfellshnjúks sumarið 1999.