Héluvorblómið er fjölært, með fáum, hvítum, fjórdeildum blómum í klasa efst á stönglinum. Krónublöðin eru hvít, 2-3 mm á lengd, naglmjó og frambreið, oftast þverstífð eða lítið eitt buguð í endann. Bikarblöðin eru innan við 2 mm á lengd, sporbaugótt, himnurend, græn eða fjólubláleit. Fræflarnir bera hvítar frjóhirzlur. Ein fræva með frænisknapp á endanum, verður að mjóoddbaugóttum, hárlausum skálpi við þroskun sem er 4-5 mm langur og 1-1,5 mm breiður. Stöngullinn er þétt settur stuttum kvísl- eða stjörnuhárum, blaðlaus. Blöðin eru í stofnhvirfingu, oftast nær heilrend og 3-4 mm á lengd, en 2-2,5 mm á breidd, hlutfallslega breiðari en stofnblöð annarra vorblóma, og gráloðin af örstuttum stjörnuhárum.