Langkrækill er fjölær jurt, oftast með áberandi löngum blómstönglum sem eru beygðir rétt undir aldininu, sem verður því oft álútt. Blómin eru fimmdeild, opnast aðeins í sólskini og eru þá 4-5 mm í þvermál (sbr. mynd). Krónublöðin eru hvít, jafnlöng bikarblöðunum, snubbótt eða sljóydd að framan. Bikarblöðin eru egglaga, ávöl að framan, græn með mjóum himnufaldi, 1,5-2,5 mm á lengd. Fræflar eru tíu, ein fræva með fjórum til fimm stílum, verður að egglaga hýðisaldini sem klofnar í fimm hluta í toppinn. Bikarblöðin lykja þétt um aldinið. Fræin eru örsmá, rauðbrún og um 0,3 mm á lengd. Laufblöðin eru ljósgræn, gagnstæð, striklaga með stuttum broddi, stöngulblöðin 4-10 mm á lengd en stofnblöðin oft töluvert lengri.
Oft er erfitt að þekkja langkrækil
frá skammkrækli. Þegar blómin breiða úr sér í sólskini þekkjast þeir
sundur á því, að krónublöð vantar oftast á hin fjórdeildu blóm
skammkrækils, en krónublöð langkrækils eru jafnlöng bikarblöðunum, og
blómin fimmdeild. Á báðum eru þó undantekningar á tölu krónublaða.
Erfiðara er að þekkja tegundirnar þegar blómin eru óútsprungin, eða
lokuð. Þá má greina þær á fjölda bikarblaða. Oft, en ekki alltaf, eru
blómleggirnir áberandi lengri á langkrækli. Þegar aldinið er orðið
þroskað er einnig gott að glöggva sig á tölu bikarblaða, en þá má einnig
greina þá á því, að bikarblöð langkrækils leggjast þétt upp að aldininu,
en bikarblöð skammkrækils sveigjast út frá aldininu.
Langkrækill í Þúfuveri við Þjórsá árið 1981. Myndin er tekin í sólskini og því eru blómin vel opin. Greina má tvö fjórdeild blóm á myndinni auk hinna fimmdeildu.