Heiðastör
Carex heleonastes
er mjög sjaldgæf,
og er friðuð samkvæmt náttúruverndarlögum. Hún vex í rennblautum flóum
og mýrum. Hún hefur aðeins fundizt á austanverðu Norðurlandi, og virðast
aðalheimkynni hennar vera í flóum Fljótsheiðarinnar. Erlendis hefur hún
mjög slitrótta útbreiðslu um norðurhvelið. Öxin á
heiðastörinni líkjast í fljótu bragði öxum rjúpustararinnar en eru þó
heldur bústnari, og þrístrent stráið er mjög snarpt af niðurvísandi
broddum á köntum þess. Heiðastörin er einnig hávaxnari og uppréttari en
rjúpustörin sem aldrei vex í flóum.
Heiðastörin er í meðallagi stór, hávaxnari
en rjúpustör, stráin upprétt og vaxa í
mýrarflóum. Öxin standa 2-3(4) saman á stráendanum, toppaxið stærst,
karlblómin neðst í öxunum. Axhlífin er brúnleit með ljósari eða
grænni miðtaug, oft
odddregin, með breiðri himnurönd. Hulstrið er grænt, stutttrýnt. Stráin
eru gisstæð, upprétt, skarp-þrístrend með uppvísandi broddum á köntunum,
mjög snörp. Blöðin eru styttri en stráið, mjó, 1-2 mm.