Fjallavorblómið hefur, fjórdeild
blóm eins og allar jurtir af krossblóma-ætt. Krónublöðin eru 3-4 mm á
lengd, öfugegglaga og frambreið, ljósgul. Bikarblöðin eru um 2 mm,
sporbaugótt, með himnufaldi. Fræflar eru sex, með gulum frjóhirslum. Ein
fræva sem verður að flötum, 4-5 mm löngum og 2-3 mm breiðum, leggjuðum
skálp, sem oftast er randhærður. Fræin eru nánast svört. Stöngullinn er
blaðlaus, loðinn, bæði með kvíslgreindum og einföldum hárum. Blöðin eru
í stofnhvirfingu, oddbaugótt eða breiðlensulaga, heilrend, randhærð og
oftast kvíslhærð á blaðfletinum. Stönglar fyrra árs standa oft uppi allt
næsta ár með römmum skálpanna frá árinu áður.
Fjallavorblómið vex á háfjallamelum en er nokkurn veginn bundið við landrænasta hluta hálendisins á miðju og norðaustanverðu landinu, svo og í byggðafjöllum á Norður- og Austurlandi. Það er afar sjaldgæft að sjá fjallavorblómið neðan 600 metra hæðar í fjöllum, en það finnst allt upp í 1450 m hæð, m.a. við Tungnafellsjökul. Algengast er það í 900-1200 m hæð, og þá oftast uppi á fjallbungum.
Hér sjáum við fjallavorblóm á mynd sem tekin var í blómapotti í gróðurhúsi Lystigarðsins á Akureyri 24. apríl árið 1961. Til hægri má sjá tæmda skálpa fyrra árs, þar sem miðhimnan stendur enn í ramma skálpsins.
Hér er fjallavorblóm á sínum náttúrlega vaxtarstað í um 1200 m hæð uppi á Torfufelli í Eyjafirði 28. júní 2005.