Lækjagrýta
Montia fontana
er smávaxin jurt af
grýtuætt með safaríkum blöðum. Hún hefur örsmá, hvít blóm með þrem
krónublöðum. Lækjagrýtan er fremur
auðþekkt á hinum smáu blómum, sem oftast eru þrídeild. Hún vex mest við
lindir og dý, oft meðfram dýjalækjum, við tjarnajaðra eða jafnvel á
grunnum tjarnarbotnum. Hún er algeng um allt land nema á öræfunum þar
sem vatn skortir. Hún fer að jafnaði upp í 750-800 m hæð við kaldar
lindir, en vex lengra upp þar sem volgar uppsprettur eru eins og í
Hveradölum í Kerlingarfjöllum og í Reykjadölum við Torfajökul í 990 m,
en er hæst skráð í Vonarskarði í 1040 m hæð.
Lækjagrýtan er hárlaus, einær jurt
sem vex í vætu, stundum í vatni. Blómskipanir hennar eru fáblóma,
endastæðar eða hliðstæðar. Tvö græn forblöð koma í stað bikars,
krónublöð eru 3-5, hvít, mislöng, 1-2 mm. Fræflar eru þrír og ein
þríblaða fræva sem verður að hnöttóttu aldini með oftast þrem,
dökkbrúnum, gljáandi fræjum, sem eru um 1 mm í þvermál. Laufblöðin eru
dökk græn, þykk og safarík, gagnstæð, 4-10 mm á lengd, öfuglensulaga eða
oddbaugótt, heilrend.