er af lyngættinni
og vex víða við utanverðan Eyjafjörð, en annars aðeins fundin á litlu
svæði við Loðmundarfjörð. Það vex einkum í snjóþungum lyngbrekkum
og móum, einkum um neðanverðar hlíðar fremur en á láglendi. Það hefur
hæst verið skráð í rúmum 500 m í fjöllum við Eyjafjörð. Blöðin minna
mjög á krækilyngsblöð, þó aðeins grófari.
Blóm bláklukkulyngsins eru á 1-3 sm
löngum, dökkrauðum leggjum. Krónan er samblaða, klukkulaga, nokkuð
belgvíð en þrengri í opið, 7-9 mm á lengd en 4-5
mm á breidd, rauðfjólublá með fimm örstutta
krónuflipa. Bikarblöðin eru dökkrauð, kirtilhærð, langþríhyrningslaga,
oddmjó, 3-4 mm á lengd. Stönglarnir eru uppsveigðir,
trékenndir neðan til, blaðmargir ofan til. Blöðin eru sígræn, striklaga,
snubbótt í endann, 4-7 mm á lengd en 1 mm á breidd, með
örsmáum tannörðum á röndunum.
Á myndinni hér að ofan
má sjá bæði krækilyng (á miðri mynd) og blöðin á bláklukkulynginu
til samanburðar. Ljósgrænu blöðin eru á aðalbláberjalyngi. Myndin er
tekin í Ólafsfjarðarmúla árið 1978.