Knjápuntur hefur fremur grannan og
fáblóma, ljósmóleitan punnt með uppréttum puntgreinum. Smáöxin eru
tiltölulega stór, gljáandi, 3-4 blóma. Axagnir eru 7-8 mm langar,
svipaðar á lengd og allt smáaxið, blómagnir eru hærðar á jöðrum neðan
til og klofnar í oddinn. Blöðin eru blágræn, allstíf, flöt, 2-3 mm
breið, oft þétt saman og þúfumyndandi, gishærð. Slíðurhimnan er ummynduð
í hárkrans.
Ax af knjápunti, tekið í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum 8. sept. 2009.
Hér sjáum við hárin í kring um blaðslíðrið (herjólfshárin), sem eru einkennandi fyrir tegundina.