Kjarrsveifgras
Poa nemoralis
er grannvaxin
grastegund með litlum punti sem að jafnaði vex í skugga, sem botngróður
í kjarri, eða í hraunsprungum og gjótum. Stráin bera venjulega 4-5
stöngulblöð frá stofni upp að punti. Punturinn er oftast
grænleitur. Kjarrsveifgrasið getur stundum líkst mjög skuggaeintökum af
blásveifgrasi. Blásveifgrasið er þó að jafnaði blágrænna á litinn og með
grófari og hrjúfari stöngul en kjarrsveifgrasið. Það vex einkum frá
láglendi upp að 600 m hæð. Hæst skráð í hlíðum Arnarfells hins litla í
750 m.
Smáöx kjarrsveifgrassins eru lítil
og fáblóma (2-3), græn eða bláleit, axagnir yddar, mislangar, blómagnir
yddar, hærðar neðan til á kjölnum og taugunum. Blöðin eru löng og grönn,
1,5-2 mm, slíðurhimnan mjög stutt, innan við 1 mm, blaðslíður og
stöngulblöð venjulega 4-5. Stráin eru grönn og mjúk viðkomu.
Kjarrsveifgras í skógarlundinum á Grund í
Eyjafirði þann 7. júlí 2008.
Nærmynd af punti kjarrsveifgrassins.