Fjallavíðirinn rís oftast ekki meir
en 10-20 (50) sm frá jörðu, þótt láréttar greinar geti orðið töluvert
lengri. Ársprotar eru hærðir, en eldri greinar með brúnum, gljáandi,
hárlausum berki. Stofninn og eldri greinar geta orðið allgildar (1-3 sm)
á gömlum runnum, grábrúnar og gljáalausar. Laufblöðin eru öfugegglaga,
oddbaugótt eða egglaga, oftast um 2-4 (6) sm á lengd og 1-2 (3) sm á
breidd, græn eða ofurlítið fjólublámenguð eða með dekkri æðum, töluvert
loðin einkum á jöðrunum og á neðra borði, ýmist hærð eða nær hárlaus á
efra borði. Blómin eru einkynja í sérbýli, mörg saman í 2-6 sm löngum
reklum. Rekilhlífarnar eru langhærðar, rauðsvartar í endann, karlblómin
með tveim fræflum með dökkrauðar frjóhirzlur á löngum stilk, sem
síðar verða gular. Kvenblómin bera eina, kafloðna frævu með stuttum stíl og dökkrauðu, tvisvar
tvíklofnu fræni. Þroskuð aldinin eru einnig kafloðin, oftast grá eða
grábrún, en stundum gul eða rauðgul, 7-10 mm á lengd, opnast með því að
klofna í tvennt ofan frá langleiðina niður, og birtast þá löng, hvít
svifhár fræjanna.
Fjallavíðirinn er afar breytileg
tegund, bæði að því er varðar blaðlögun, hæringu, gerð rekla og lit
þeirra. Afbrigðileg eintök hans getur oft verið erfitt að greina frá
loðvíði. Dæmigerð eintök hafa þynnri, minna loðin og mjórri blöð en
loðvíðir, og fjallavíðirinn er alltaf meir eða minna jarðlægur. Ef
plantan er blómguð er öruggasta einkennið þó frævan og aldinið sem eru
kafloðin á fjallavíði, en hárlaus á loðvíði. Snemma vors er rauði
liturinn á frænum og frjóhirzlum fjallavíðisins gott einkenni. Þegar
plantan er blómlaus, þekkist hann bezt frá loðvíði á mjög smáum eða
engum axlablöðum, ef blaðgerðin er ekki ótvíræð. Unga sprota getur
stundum verið erfitt að greina frá lágvöxnum gulvíði.
Fjallavíðir með kvenreklum í Leifsstaðabrúnum í Kaupangssveit í júní 1994.
Fjallavíðir með karlreklum í Leifsstaðabrúnum í Kaupganssveit í júní 1994.
Þannig kemur fjallavíðirinn oft fyrir sjónir á hálendinu. Hann getur lifað af þótt jarðvegurinn fjúki á brott. Myndin er tekin uppi á Hraungarðshaus á Eyvindarstaðaheiði 15. ágúst 1987.