Gullstör
Carex viridula var. pulchella
er fremur sjaldgæf,
smávaxin stör með fagurgrænum öxum. Hún vex í bleytu, oft í
hálfþornuðum tjarnastæðum, við vatnsseytlur eða á lækjarbökkum og á
votum jarðvegi á klettastöllum. Gullstörin vex aðallega neðan 200 m á
láglendi, hæstu fundarstaðir eru í Mývatnssveit í 270-300 m.
Gullstör er fremur sjaldgæf, finnst hér og hvar í kring um landið, en
vantar alveg í sumum byggðarlögum. Einna algengust er hún á
Suðvesturlandi og í Þingeyjarsýslum. Einnig er hún nokkuð víða á
Vestfjörðum og nyrzt á Austfjörðum.
Gullstör ber tvö til þrjú egglaga
eða nær hnöttótt, græn kvenöx, a.m.k. tvö þau efstu þéttstæð. Eitt
karlax í toppinn. Axhlífar eru ljósar, gulgrænar eða gulbrúnar, stundum
fagurgrænar umhverfis mið-taugina, odddregnar. Hulstrið er grænt eða
gulgrænt, 2-2,5 mm langt, rifjað eða taugabert með afar
langri trjónu. Frænin eru þrjú. Langt, oft útstætt eða niðurvísandi stoðblað
er neðan við öxin. Blaðsprotar eru oft þéttstæðir; blöðin eru
1,5-3 mm breið, oft flöt. Stráin eru þrístrend.
Gullstörin hefur áður verið greind sem Carex serotina eða
Carex oederi, en er núna talin tilheyra var. pulchella af
Carex viridula, sem einnig hefur verið nefnd silfurstör á
íslenzku. Endanleg greining er þó ekki orðin alveg ljós.
Hér sjáum við gullstör í Reykjarfirði nyrðri á Ströndum árið 1984
Gullstör, tekið á sama stað.