Spánarkerfill
Myrrhis odorata
er stórvaxin jurt
af sveipjurtaætt. Hún er innflutt fyrir alllöngu síðan, og hefur
breiðst nokkuð út af sjálfsdáðum bæði í trjágörðum, við bæi og meðfram
lækjum. Hann er auðþekktur frá öðrum sveipjurtum á hinni sterku
aníslykt og anísbragði af blaðstilkum. Spánarkerfillinn verður nokkuð
yfirgangssamur í frjóum og áburðarríkum jarðvegi líkt og frændi hans,
skógarkerfillinn,
en fer sér þó hægar. Aldinin eru allstór með áberandi langsrifjum, og
dreifast því skammt undan vindi, en fljóta vel í rennandi vatni.
Blóm spánarkerfils eru í tvöföldum,
allstórum (5-10 sm) sveipum, 2-4 mm í þvermál. Krónublöðin
eru 5, grænhvít, 2 mm á lengd, skert í oddinn. Fræflar eru 5. Frævan
er með
tveim stílum, myndar tvö, gljáandi, dökkbrún deilialdin með skörpum
rifjum; aldinin eru 20-25 mm á lengd. Smáreifarnar eru randhærðar,
stórreifar vantar. Stönglar og blaðstilkar eru loðnir, blöðin ljósgræn,
þrífjöðruð, loðin. Sterkt anísbragð er af blaðstilkunum.
Spánarkerfill líkist skógarkerfli í útliti, en þekkist bezt á
sterku anísbragði blaðstilkanna, á stærri og skarprifjuðum aldinum, og
blómskipanin er einnig stærri og þéttari, virkar dreifðari á
skógarkerfli. Blöðin eru ljósgrænni, og hafa stærri og samfelldari
blaðflöt en skógarkerfillinn. Það er líka erfiðara að uppræta
spánarkerfilinn með því að grafa upp ræturnar, því þær eru áberandi
stærri og sterkari.
Spánarkerfill á Arnarhóli í Kaupangssveit
árið 1984,
Hér sjást rætur af skógarkerfli (til
vinstri) og spánarkerfli (til hægri). Spánarkerfillinn hefur
miklu gildari og öflugri rætur, sem erfiðara er að ná upp úr
jörðunni. Myndin er tekin 19. júní 2014.
Hér að ofan má sjá
hálfþroskuð aldini spánarkerfils í návígi, myndin tekin á Arnarhóli
árið 2004
Blöð af spánarkerfli (til vinstri) og skógarkerfli (til hægri)
til samanburðar.