Safastör
Carex diandra
er mjög sjaldgæf á
Íslandi, og nær eingöngu fundin meðfram ströndinni á
Suðurlandi á milli Ölfusár og Jökulsár á Breiðamerkursandi. Einna
algengust virðist hún vera í Öræfum. Einn stakur fundarstaður er utan
þessa svæðis, í flóa við Ytri-Garða og Hofgarða á Snæfellsnesi. Fyrst
fundin af Helga Jónssyni á Sandfelli í Öræfum árið 1901 (Helgi Jónsson
1907) undir nafninu Carex paniculata. Hún vex í mýrum og
flóum. Allir fundarstaðirnir eru neðan 200 m hæðar.
Safastörin er fremur hávaxin, með
5-8 þéttstæðum öxum sem mynda brúnan, keflislaga, 2-3 sm langan dúsk á
stráendunum. Fáein karlblóm eru efst í öxunum. Axhlífar eru ljósbrúnar,
himnurendar, oddmjóar. Hulstrið er brúnt, dregst jafnt saman í langan
odd með broddóttum hliðarköntum. Frænin
eru tvö. Stráin eru nær sívöl en
gárótt neðan til, sljóstrend ofar og lítið eitt snörp. Blöðin eru löng,
grágræn, 2-3 mm breið.