Garðasól er allstór fjölær jurt með fjórdeildum blómum. Blómin eru 4-6 sm í þvermál, í þrem mismunandi litum, hvít, gul eða rauðgul. Krónublöðin eru fjögur, 2,5-3 sm á lengd. Bikarblöðin eru tvö, kafloðin dökkbrúnum hárum, lykja alveg um blómið áður en það springur út, en falla strax af við blómgun. Fræflar eru mjög margir, 10-12 mm á lengd, frjóhirzlur litlar, gular. Ein stór fræva sem verður að 1,5-2 sm löngum aldinbauk, með dökkbrúnum, aðlægum hárum á hliðunum og sex til níu arma, stjörnulaga fræni ofan á toppnum. Aldinið opnast með götum á börmunum, fræin eru mjög mörg en smá, um 1 mm í þvermál. Blómleggirnir eru langir, með brúnum hárum. Laufblöðin eru stofnstæð, langstilkuð, fjaðurflipótt eða skipt, hárlaus að undanskildum örfáum randhárum neðst á stilknum.
Hér sjáum við alla þrjá liti garðabrúðunnar. Tekið í Blönduhlíð í Skagafirði 3. ágúst 2010
Garðasól í nágrenni Reykjavíkur árið 1985.
Garðasól í návígi í nágrenni Reykjavíkur árið 1982.